Páskaegg

Birtist í Allskonar, Hugmyndir

Að lita sín eigin egg er einfalt og skemmtilegt, eitthvað sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í.

Þessi egg eru lituð með náttúrulegum efnum, en eru enn fullt hús matar og ósoðin, það er gaman að opna ísskápinn og sjá þar páskaeggin litrík og falleg í bakka.

Edik er notað til að hjálpa til með litunina, edikið mýkir upp skurnina þannig að liturinn á auðveldar með að leika við skurnina.

 

Til að lita gulu eggin þarftu 3 msk túrmerik og 500ml af vatni. Sjóddu kryddið og vatnið þar til túrmerikið er leyst upp. Láttu vatnið kólna og hrærðu þá 1 msk af ediki saman við. Þegar það er orðið kalt þá leggurðu eggin í og lætur liggja í dágóðan tíma, 2-3 klst eða allt eftir því hversu sterkan lit þú vilt á eggin.

Brúnu/Appelsínugulu eggin voru lituð með paprikudufti. Sami háttur var hafður á að útbúa krydd/vatnslausnina og með túrmerikið. Eggin þurfa að liggja lengur í þessum lit, eða í um 3-4 klst.

Til að lita bleiku eggin notaði ég safa af niðursoðnum rauðrófum. Það er líka hægt að saxa 1 stk hráa rauðrófu niður í 500ml af vatni og sjóða, sía svo vatnið frá. Rauðrófuvökvinn litar mjög hratt, eggin fengu djúpan og fallegan lit eftir um 1 1/2 klst í leginum.

Bláu eggin voru lituð með bláberjasaft. Þú getur líka litað þau með því að taka 1 bolla af söxuðu fersku rauðkáli og sjóða í vatni. Mundu bara að setja eggin ekki í heitt vatn, þú vilt geta geymt þau áfram inni í ísskáp og notað í bakstur eða matargerð.

 

Ef þú vilt lituð soðin egg þá sýðurðu þau í krydd/vatnslausninni og lætur svo liggja í þar til vatnið hefur kólnað.

Þú getur líka blásið úr hráum eggjum og litað skurnina á sama hátt.

Dásamlega vorlegt og skemmtilegt. Gangi þér vel !