Láttu verða af því

Birtist í Allskonar, Hugmyndir

Við eigum öll drauma um að gera hitt og þetta en einhvernveginn virðist aldrei vera tími. Eitthvað veldur því að við getum ekki byrjað á verkefnunum eða lagt tíma í þau - eða klárað þau.

Þú átt svo miklu meiri tíma en þú heldur.

Hér koma nokkur atriði sem taka tíma frá okkur sem þú gætir skipt út til að láta eins og einn eða tvo drauma verða að veruleika. Hver veit, kannski er eitthvað á þessum lista sem er alger óþarfi og þú áttar þig á því að þú saknar bara alls ekki neitt.

Slökktu á sjónvarpinu: Er sjónvarpið það fyrsta sem þú kveikir á þegar þú kemur heim og það síðasta sem þú slekkur á á kvöldin? Slökktu og hafðu slökkt - eða það sem er betra; taktu úr sambandi!

Skammtaðu þér tíma á netinu: Þú kannast við þetta; þú ætlar aðeins að kíkja á facebook og svo er allt í einu liðinn rúmur klukkutími. Skammtaðu þér tíma og ef þér gengur illa að standa við tímaplanið fáðu þér eggjaklukku og láttu hana hringja þegar tíminn er búinn.

Hættu að tala um hlutina: Það er ágætt að tala um það sem þig langar að gera, en hvað ef þú ert ein/n af þeim sem bara talar og talar en svo gerist ekki neitt. Ef þú ætlar að tala um það sem þú hefur í hyggju að gera temdu þér þá að segja fólki frá því hvenær þú ert tilbúin/n að sýna afrakstur vinnunnar -og stattu við það.

Útbúðu lista: Gerðu lista af hlutum sem þig hefur langað að gera eða koma í verk og hversu langan tíma þetta tekur. Gerðu svo annan lista þar sem þú listar allt sem þú í raun gerir eða þarft að gera yfir daginn. Þú sérð að þarna fellur tími til afgangs. Hugsaðu um hvernig þú ætlar að nýta þennan afgangstíma.

Verkefnastýrðu þér: Hversu langan tíma ætlar þú að reikna með í verkefnið? Settu niður tíma til að sinna því sem þarf að sinna heima, tíma til að sinna þér, tíma til að vinna að verkefninu þínu, tíma fyrir fjölskylduna. Gerðu meira en eitt í einu, ef þú ert að baka brauð þá getur þú sett í vél, farið í göngutúr með makanum eða unnið að verkefninu þínu.

Hafðu krakkana með: Börnin geta hjálpað þér eða unnið með þér - eða gefið þér innblástur.

Vertu skapandi: Hittu skapandi fólk, farðu á myndlistarsýningar, taktu ljósmyndir, fáðu þér skissubók og teiknaðu eða krassaðu, hlustaðu á eitthvað nýtt á hverjum degi, talaðu við þá sem eru ósammála þér, lestu bækur, farðu aðra leið í vinnuna en venjulega. Láttu þér detta eitthvað nýtt í hug á hverjum degi.