Gerðu daginn sólríkan

Birtist í Allskonar, Hugmyndir

Fáðu innblástur og taktu meðvitaða ákvörðun um að gera þennan dag eftirminnilegan. Fylgdust vel með, innblásturinn er að finna allstaðar.

Hrósaðu þér. Segðu góða hluti um þig, ekki vera hrædd/ur við að hrósa þér. Þú ert nefnilega svolítið frábær.

Hrósaðu öðrum. Leggðu þig fram við að hrósa fólkinu í kringum þig á einlægan hátt. Það er svo miklu jákvæðara að benda á það sem vel er gert en það sem neikvætt er. Öllum þykir vænt um hrós og hvatningu, það kostar ekkert en er svo mikils virði.

Hlustaðu og sýndu öðrum meiri athygli. Með því að hlusta og meðtaka hvað aðrir segja þá eru líkurnar á misskilningi eða árekstrum svo miklu minni. Vertu einlæg/ur þegar þú hlustar á aðra, þú gætir komist að einhverju stórmerkilegu og kynnst fólki á nýjan hátt.

Gerðu alltaf þitt besta. Leggðu þig alla/n fram í öllu sem þú gerir, þá getur þú verið sátt/ur við þín verk.

Farðu í göngutúr. Hreyfing og ferskt loft hefur ótrúlega frískandi áhrif. Eyddu tímanum í að horfa á allt sem náttúran býður upp á og segðu við sjálfa/n þig að þú ert heppin/n að fá að njóta þessa dags og allra tækifæranna sem í honum liggja.