Við búum í landi þar sem við höfum þau ótrúlegu forréttindi að geta drukkið dýrindis vatn beint úr krananum, meira að segja úr krananum á bílaþvottaplaninu. En við gleymum stundum að drekka nóg yfir daginn, við verðum orkulítil og þreytt; mildur vökvaskortur getur leitt til einbeitingarleysis, svima og höfuðverkja.

En hvað getum við gert til að drekka meira vatn? Og hvað getum við gert til að dreka frekar vatn en einhverja aðra drykki?

Taktu vatnsbrúsa með þér þegar þú ferð að heiman. Það er ótrúlegt hvað maður getur orðið þyrstur í stuttum bíltúr og endar á að stoppa í sjoppu og kaupa eitthvað að drekka. Ég hef vanið mig á að hafa alltaf vatnsflösku með mér þegar ég fer eitthvað akandi og fylla á vatnsflösku á morgnana í vinnunni. Þar er ég með fallega glerflösku til að minna mig á að drekka eitthvað annað en kaffi.Þannig get ég líka fylgst auðveldlega með hversu mikið vatn ég drekk yfir daginn og hvort það er nóg -og spara mér nokkra þúsundkallana yfir mánuðinn þar sem ég hleyp þá ekki í sjoppu til að kaupa eitthvað að drekka.

Drekktu vatnsglas áður en þú borðar. Það er töluvert hollara að slá á þorstann með vatnsglasi en að panta sér stóra kók með matnum og þamba hana. Vatnið er best við þorsta, og gott ráð er að drekka vatn áður en þú finnur fyrir þorsta.

Settu vatnsflösku í ísskápinn. Það er frábært að eiga ískalt vatn tilbúið þegar maður þarfnast þess. Það eru ekki alveg allir svo heppnir að búa þar sem vatnið gusast ískalt úr krananum og freistast til að drekka sykraða drykki frekar en að láta vatnið renna til að fá kalt vatn. Fyrir utan hvað það er óvistvænt að láta vatn renna í langan tíma til að fá það kalt!

Klæddu vatnið í spariföt. Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa klaka og rör til hátíðarbrigða, helst að setja nokkra dropa af berjasafa til að fá lit og setja eitthvað grænt með eins og myntu. Vatnið er dásamlegt í hversdagsfötunum en alveg stórkostlegt í sparifötunum.

Fáðu þér sódavatnstæki, það býður upp á svo ótrúlega margt, er sér kafli um vatn í sparifötum og að mínu áliti nauðsynlegt heimilistæki. Leiktu þér með klaka og prófaðu að frysta sneiðar af sítrónu, heil vínber, setja granateplafræ eða myntu í klakabox með vatni og frysta. Frosnir sítrónubátar eru snilld út í gin og tónik, frosin vínber eru frábær til að narta í.

Það er til ótrúlegt úrval af rörum sem lítið kosta. Mig dreymir um að rekast aftur á  krullað rör úr hörðu plasti með glimmeri í eins og ég átti sumarið sem ég var 10 ára. Það væri fullkomnun fyrir sumardrykk; 50/50 sódavatn og eplasafi með 1/2 lime skornu í þunnar sneiðar, rifinni ferskri myntu og muldum klaka í háu glasi.

Finndu þér fallegt glas til að drekka úr, vatnið breytist ekki, en það er oft skemmtilegra að drekka úr kristalsglasi eða einhverju glasi sem þér finnst fallegt.

 

En hvað ef þér finnst vatn bara ekkert gott?

Þá er hægt að bragðbæta vatnið á ýmsa vegu. Þú getur sett út í það sneidda ávexti, ber og grænmeti, ferskar kryddjurtir, búið þér til drykkjarsýróp og þykkni, bragðbætt með olíum og essensum.  Sítrónur, lime, appelsínur og greip ávöxtur í sneiðum, sneiðar af fallegu rauðu eða grænu epli, marin stöngull eða tveir af sítrónugrasi, smá sítrónumelissa eða mynta eða jafnvel blóðberg, nokkur marin bláber eða sólber, jarðarber úr garðinum ef þú tímir. Engiferrót í sneiðum, rabarbari og hunang með 1/2 vanillustöng, gúrkusneiðar og mynta með smá dash af limesafa (brjálæðislega ferskt). Það eru engar reglur !

Hvað finnst þér best?