Print Friendly, PDF & Email

Þetta salat er alveg dásamlegt, sætt og salt, litskrúðugt með allskonar áferð. Frábært í kvöldmatinn eða sem meðlæti með kjöti/fisk.

Ef þú ætlar uppskriftina sem aðalrétt þá er hún fyrir 2-3 en sem meðlæti fyrir 4-6.

Uppáhaldssalat

 • 80gr brúnar/grænar linsur
 • 1 rauðrófa, skorin í báta
 • 6 kartöflur, í þykkum sneiðum
 • 1 rauðlaukur, skorin í 4
 • 2 hvítlaukrif, marin
 • 3 msk ólífuolía
 • 1msk cuminfræ
 • salat af ýmsu tagi og spínat
 • handfylli ferskur kóríander
 • fetaostur og geitaostur
 • Dressing
 • 1 skallottulaukur, rifinn
 • 5 msk ólífuolía, extra virgin
 • 2 msk hvítvínsedik
 • 2 hvítlaukrif, marin
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk sjávarsalt

Undirbúningur og baksturstími: 30 mínútur

Samsetning: 5 mínútur

Hitaðu ofninn í 180°C.

Byrjaðu á að sjóða linsubaunirnar í söltu vatni. Þær sjóða á um 20 mínútum.

Flysjaðu rauðrófuna eða þvoðu vel, skerðu hana í litla báta og settu í skál. Skerðu kartöflurnar í þykkar sneiðar og settu í skálina með. Skerðu nú rauðlaukinn í 4 hluta og merðu hvítlauksrifin með hnífnum, það er óþarfi að flysja þau. Settu út í skálina ásamt 1 msk af cuminfræjum og 3 msk ólífuolíu. Hrærðu vel með höndunum  þannig að olían dreifist jafnt um grænmetið. Settu í eldfast mót og bakaðu í ofninum í 25 mínútur.

Búðu nú til dressinguna.

Rífðu skallottulaukinn á fínu rifjárni, við það verður hann að hálfgerðu mauki. Settu í skál og helltu ediki yfir, hrærðu vel. Sýran í edikinu „eldar“ laukinn og af honum kemur gott og sætt bragð. Settu nú allt hitt sem á að vera í dressingunni út í og hrærðu vel saman. Ef þú vilt hafa dressinguna þynnri þá bætirðu meiri olíu út í. Settu til hliðar .
Þegar linsurnar eru soðnar þá skolarðu þær úr köldu vatni og setur á stóran disk eða í skál sem þú ætlar að bera salatið fram í/á.

Þar næst tekurðu grænmetið í ofninum og setur á diskinn.

Brjóttu nú yfir þetta feta ost og dreifðu geitaosti líka yfir. Þú getur notað harðan geita ost, eða smurost.

Dreifðu dressingunni vel yfir allt og stráðu svo nokkrum ferskum kóríanderblöðum yfir.

 

Dásamlegt!

Verði ykkur að góðu.