Print Friendly, PDF & Email

Trönuber eru þekkt hollustufæða og ekki er verra ef er hægt að búa til köku úr þeim. Þessi kaka er ekki mjög sæt, en er létt og góð og full af berjum, það er líka hægt að smyrja sneiðarnar eða borða þær með ís og hunangi, ef þú villt sæta köku þá bætirðu við sykri (alls 150-200gr).

Ef þú getur ekki fundið fersk trönuber þá má nota frosin og er þá vatninu í uppskriftinni sleppt, ef þú vilt nota þurrkuð þá þarf að leggja þau í bleyti í heitt vatn amk 1 klst áður en þú bakar og hella svo af þeim vatninu (sleppa þá vatninu í uppskriftinni líka).

 

Trönuberjakaka

  • 250 gr hveiti
  • 100 gr sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • safi og rifinn börkur af 1 appelsínu
  • 4-5 msk vatn
  • 3-4 msk smjör
  • 1 egg, slegið saman
  • 50 gr valhnetur, grófhakkaðar
  • 200 gr trönuber, skorin í tvennt

 

Undirbúningstími: 30 mínútur

Bökunartími: 45 mínútur

 

Hitaðu ofninn í 180°C.

Smyrðu jólakökuform að innan með smá smjöri og hristu örlítið hveiti í formið líka.

Settu hveiti, sykur, lyftiduft og salt í skál og blandaðu saman.

Bræddu smjörið í potti og slökktu undir honum, rífðu börk af 1 appelsínu út í pottinn og kreistu safann úr appelsínunni saman við. Settu 4-5 msk af vatni saman við og hrærðu vel. Blandaðu nú egginu út í smjörblönduna og hrærðu vel saman.

Blandaðu eggja/smjörblöndunni saman við þurrefnin og hrærðu þannig að blandist vel saman. Hrærðu þá valhnetunum og trönuberjunum varlega saman við.

Helltu deiginu í mótið, það er svolítið þykkt svo að þú þarft að laga það til þannig að fylli vel út í mótið. Gott getur verið að slá létt í mótið til að fá deigið til að setjast betur út í hornin.

Bakaðu í 45 mínútur, eða þar til þú getur stungið tannstöngli í miðja kökuna og hann kemur hreinn út.

Taktu úr ofninum og látu sitja í 4-5 mínútur, taktu svo úr mótinu og láttu kólna á grind.