Print Friendly, PDF & Email

Mig vantaði eitthvað gott til að setja á grillaðar samlokur og datt í hug að gera smá tilbrigði við tómatasultu. Niðurstaðan varð þessi, dúndrandi sterkt og bragðmikið og alveg fullkomið á grillað brauð með osti.

 

Tómatamauk

  • 2 dósir plómutómatar
  • 10 hvítlauksrif
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 2 tsk hrásykur
  • 1/2 tsk svartur pipar
  • 1 tsk kóríanderfræ
  • 1/2 tsk cuminfræ
  • 1/2 tsk kanill
  • 1 ferskt rautt chili (má sleppa)

 

Undirbúningstími: 5 mínútur

Eldunartími: 1-2 klst

 

Hitaðu ofninn í 140°C og klæddu lítið eldfast mót að innan með álpappír, þetta auðveldar þér að þrífa mótið á eftir.

Taktu tómatana úr dósunum úr safanum og skerðu í bita, saxaðu þá svolítið vel, og settu í mótið. Þú mátt setja helminginn af safanum úr dósunum með.

Skerðu hvítlaukinn í mjög þunnar sneiðar og settu út í tómatana ásamt, salti, sykri og kryddi. Hrærðu vel saman.

Þú mátt sleppa því að nota rautt chili, en ef þú vilt hafa þetta vel sterkt þá frænhreinsarðu það og skerð í þunnar sneiðar og setur út í.

Mótið er því næst sett inn í ofn og allt látið malla þar í 1-2 klst, þetta þarf að þykkna svolítið vel. Gott er að hræra í þessu annað slagið til að passa að brenni ekki við.

Það verður um 150ml af sultu úr þessu, með ómótstæðilega miklu tómatabragði. Frábært á grillað brauð, á kex, með osti, út í súpur, og með kjöti, blandað út í hreinan rjómaost og og og…… Þetta geymist í krukku í ísskáp í 1 viku, en líklegt er að þetta klárist eins og skot.