Print Friendly, PDF & Email

Það er ótrúlega fljótlegt og einfalt að útbúa sultaðan rauðlauk og hann er algerlega nauðsynlegt meðlæti með grillmat, fínsaxað út í salöt og í steikarsamlokur eða á borgara.

Þú getur notað allskyns heil krydd í edikslöginn. Ég nota lárviðarlauf, negulnagla, svört piparkorn, sinnepsfræ.

Þessi uppskrift dugar í um 3 krukkur.

Sultaður rauðlaukur

  • 4 rauðlaukar, skornir í hringi
  • 1 dl vatn
  • 2 dl rauðvínsedik
  • 115 gr hrásykur
  • 1 tsk salt
  • 2 lárviðarlauf, mulin
  • 3 msk allskyns heilt krydd

Undirbúningur: 15 mínútur

Settu í pott vatn, edik og sykur og láttu suðuna koma upp, bættu heilu kryddunum út í. Sjóddu þar til sykurinn er búinn að leysast upp.

Á meðan flysjarðu laukinn og skerð í þykka hringi.

Þegar edikslögurinn hefur soðið þá seturðu laukhringina út í edikið og slekkur undir pottinum.

Láttu laukinn liggja í edikinu í um 1-2 mínútur og taktu þá strax laukinn upp úr og þjappaðu vel í sótthreinsaðar krukkur. Það er nauðsynlegt að þjappa svolítið vel því þú vilt ekki hafa krukkuna fulla af edikslegi heldur dýrindis lauk.

Helltu þar næst ediksleginum í krukkurnar þannig að fljóti vel yfir og settu lok á.

Tilbúið til að borða eftir 6-12 klst en er best eftir nokkra daga.

Geymist í 3-4 mánuði í lokaðri krukku í skáp en opin krukka þarf að fara inn í ísskáp.