Print Friendly, PDF & Email

Þessar eru alveg frábærar og einfaldar en ekki beint hollar þó þær séu hveitilausar! En það er það sem er svo spennandi við sætindi; að fá örlitla tilbreytingu og smakk annað slagið.

Uppskriftin er að grunndeigi, út í það má setja hvað sem er, og nota hvernig sykur sem er. Ég setti hrásykur, stórar ristaðar kókosflögur, döðlubita og salthnetur út í mínar.

Súkkulaðismákökur

  • 300 gr sykur
  • 90 gr kakóduft
  • 1/2 tsk salt
  • 3-4 eggjahvítur
  • allskyns grams

Undirbúningstími: 5 mínútur

Kæla í ísskáp: 1 klst

Baksturstími: 10-20 mínútur

Hrærðu saman sykur, kakóduft og salt svo að blandist vel saman. Settu nú 2 eggjahvítur út í og þeyttu þar til hafa blandast alveg við þurrefnin. Bættu 3ju eggjahvítunni við og þeyttu vel. Þú vilt að þetta deig sé seigt súkkulaðileðjudeig, eins og deig fyrir brownie. Bættu 4ðu eggjahvítunni við, í helmingum, ef þér finnst þurfa.

Settu út í deigið það sem þú vilt hafa í því, surprise bitana. Þú getur notað hvað sem er; þurrkaða ávexti, hnetur, súkkulaðibita, kókos, fræ osfrv.

Kældu deigið í 1 klst.

Hitaðu ofninn í 170°C.

Settu kökurnar með matskeið á smurðan bökunarpappír á plötu og bakaðu í 10-14 mínútur eða þar til þær eru orðnar dökkar í kantana. Láttu kólna á bökunarpappírnum í 10 mínútur. Ekki reyna að ná þeim af!! Þær fara þá í klessu.

Þetta deig á að skila 18-20 kökum miðað við að hver þeirra sé 1 msk.

Frábærar með íííískaldri mjólk. Hvernig finnst þér þær bestar?