Warning: Cannot modify header information - headers already sent by (output started at /home/allskonar/Sites/allskonar.is/allskonar/wp-content/themes/tasty/header.php:3) in /home/allskonar/Sites/allskonar.is/allskonar/wp-content/themes/tasty/header.php on line 11
allskonar.is | Rifjasteik
Print Friendly

Það er ekkert eins og rif sem renna af beinunum, dísæt og mjúk. Þessi uppskrift er afar einföld og þú getur valið hvort þú klárar að elda rifin á grillinu eða í ofni. Sósuna geturðu líka notað sem grillsósu á annað kjöt.

Grísarif fyrir 6

  • 1.5-2 kg grísarif
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, marið
  • 2 msk paprikuduft, reykt
  • 1 tsk chiliflögur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 3 msk tómatpúrra
  • 1.5 dl hvítvínsedik
  • 125 gr púðursykur

Undirbúningur: 20 mínútur

Eldunartími: 2.5-3 klst

Hitaðu ofninn í 140°C. Settu grísarifinn í ofnpott og settu vatn í pottinn þannig að rétt fljóti yfir rifin. Lokaðu ofnpottinum með loki eða álpappír og settu í ofninn. Láttu malla í ofninum í 90 mínútur.

Taktu rifin upp úr vatninu eftir suðutímann og láttu renna af þeim vatnið, leggðu álpappír yfir  og kældu ef þú ætlar ekki að steikja eða grilla þau strax.

Á meðan rifin sjóða í ofninum gerirðu sósuna.

Steiktu laukinn í olíu í 5-6 mínútur og bættu þar næst við hvítlauk, reykta paprikuduftinu og chiliflögunum. Hrærðu vel saman þar til allt fer að ilma í 1-2 mínútur. Bættu þá tómötunum og tómatpúrrunni út í pottinn ásamt ediki og sykri og láttu sjóða við lágan hita í 10-15 mínútur. Settu sósuna í krukku þar til þú ætlar að steikja eða grilla rifin.

Ef þú ætlar að steikja rifin í ofni þá hitarðu ofninn í 200C.

Penslaðu sósunni yfir rifin og settu þau á bökunarpappír á plötu og inn í ofninn. Penslaðu eftir aðrar 20 mínútur og snúðu rifjunum við. Steiktu í 20 mínútur í viðbót eða í 40 mínútur alls.

Ef þú ætlar að grilla rifin þá grillarðu þau á mjög heitu grilli og penslar jafnóðum. Snúðu reglulega og penslaðu. Kjötið er laust í sér þannig að þú gætir þurft að nota grillspaða eða tvær tangir.

Þegar rifin eru til þá skerðu þau í sundur og setur í dýrindis hrúgu á stórt fat. Það er gott á setja afganginn af sósunni með í skál ef einhver er til að hægt sé að dýfa kjötinu í sósuna.

Borið fram með brakandi salati, ísköldum drykk og helst í góðum félagsskap.