Print Friendly, PDF & Email

Þessi rabarbara baka er alveg himnesk og fullkomið að nota í hana frosinn rabarbara. Þannig getum við notið bragði af sumri allt árið um kring.

Þú þarft 23cm bökumót eða springform til að baka þessa böku.

Rabarbarabaka

 • Deig
 • 1 eggjarauða
 • 3msk ískalt vatn
 • 150gr hveiti
 • 1 tsk sykur
 • 1/4 tsk salt
 • 110 gr smjör, kalt í teningum
 • Fylling
 • 500gr rabarbari, í bitum
 • 50gr púðursykur
 • 2 msk kartöflumjöl
 • hnífsoddur salt
 • 2 eggjarauður
 • 1 msk smjör
 • Marens
 • 3 eggjahvítur
 • 75gr sykur

Undirbúningur: 40 mínútur

Bökunartími: 40 mínútur

Byrjaðu á að útbúa deigið.

Hrærðu eggjarauðunni saman við kalt vatn í skál.

Settu í skál á matvinnsluvél, hveiti, sykur og salt og smjörið í teningum og blandaðu þar til líkist brauðmyslnu. Þú getur líka gert þetta í höndunum án þess að nota matvinnsluvél með því að nudda smjörinu inn í hveitiblönduna.

Bættu eggjarauðunni saman við og hnoðaðu í kúlu, þú gætir þurft aðeins meira hveiti eða örlítið af vatni. Settu kúluna í stóran plastpoka og flettu út með kökukefli í stóra deigskífu. Settu inn í ísskáp og láttu kólna í 10 mínútur.

Hitaðu ofninn í 190°C.

Settu Rabarbarann í pott ásamt púðursykrinum og 5 msk af vatni og láttu sjóða við meðalhita þar til rabarbarinn er mjúkur.

Þú getur núna tekið út deigið og flatt það út. Leggðu í bökunarformið og snyrtu kantana, fylltu botninn á forminu með bökunarbaunum ef þú átt þær, annars er nóg að klippa út úr bökunarpappír skífu sem passar í botninn á deiginu og hella þar yfir þurrkuðum baunum.
Bakaðu í ofninum í 20 mínútur.
Eftir 20 mínútur tekurðu baunirnar (og bökunarpappírinn) úr og bakar deigið í 5 mínútur í viðbót.

Á meðan þykkirðu rabarbaramaukið.

Hrærðu kartöflumjölinu saman við 2-3 msk af vatni, helltu út í rabarbarann á meðan sýður og hrærðu vel í. Þegar blandan er orðin þykk tekurðu hana af hitanum.

Taktu bökudeigið út úr bakarofninum.

Rabarbarablandan ætti að hafa kólnað núna. Settu nú eggjarauðurnar og saltið  út í og hrærðu vel saman. Settu 1 msk af smjöri út í og blandaðu vel.

Helltu blöndunni yfir deigið í mótinu.

Útbúðu núna marensinn.
Þeyttu eggjahvíturnar og bættu við hægt og rólega sykrinum þar til þær eru meðal stífar. Passaðu þig að ofþeyta ekki marensinn, þá verður hann grófur.

Settu marensinn yfir bökuna og búðu til fallega toppa eða sveigi eða mynstur.

Settu grillið í bakarofninum á mesta hita og grillaðu marensinn í 1-2 mínútur rétt fyrir neðan miðju í ofninum. Fylgstu vel með á meðan til að marensinn brenni ekki.

Dásamlegt borið fram í góðum félagsskap – og það verður afar sjaldan afgangur!

IMG_2808-2