Print Friendly, PDF & Email

Þessi eftirréttur er svo miklu einfaldari en hann lítur út fyrir að vera og þú getur notað rjóma í staðinn fyrir kókosmjólk ef þér finnst kókos ekki góður.

Panna Cotta fyrir 4

 • Kókoshlaup
 • 1 dós kókosmjólk
 • 3 msk hrein jógúrt
 • 1 vanillustöng
 • 1 msk hunang
 • 3 blöð matarlím
 • Rabarbarahlaup
 • 200 gr rabarbari
 • 100gr hrásykur
 • 2 dl rauðvín
 • 5 cm kanilstöng
 • 2 blöð matarlím

Undirbúningur: 30 mínútur

Tími í ísskáp: 90 mínútur

Byrjaðu á að útbúa Rabarbarahlaupið. Settu rabarbara í bitum í pott ásamt hrásykri, rauðvíni og kanilstöng. Láttu sjóða vel í um 20 mínútur. Síaðu þá vökvann frá, láttu matarlímsblöðin í bleyti í 5 mínútur og hrærðu þeim svo saman við rabarbarasaftina. Láttu kólna.

Á meðan að rabarbarahlaupið sýður þá útbýrðu kókoshlaupið.

Settu í pott kókosmjólk, jógúrt og hunang. Skerðu vanillustöngina í tvennt eftir endilöngu og settu út í pottinn. Láttu sjóða við vægan hita í 3-5 mínútur, hrærðu vel í á meðan. Á meðan að kókosblandan sýður þá seturðu 3 matarlímsblöð í skál með köldu vatni. Þegar þau eru orðin lin og hlaupkennd (eftir um 5 mínútur) þá seturðu þau út í kókosblönduna og hrærir vel svo að matarlímið leysist upp.

Helltu nú kókosblöndunni í glös eða skálar. Settu inn í ísskáp og láttu kólna.

Þegar rabarbarablandan hefur kólnað þá hellirðu henni ofan á kalda kókosblönduna í glösunum/skálunum. Láttu stirðna inni í ísskáp.

Fallegt er að skreyta með litlum blómum, athugaðu að kynna þér vel hvort má borða blómin sem þú notar.

 

Æt blóm geta verið til dæmis skjaldfléttur, fjólur, morgunfrúr, fíflablóm, smári, yllir, hibiscus rós, maríustakkur, ljónslappi, lavender, blóðberg og stjúpur.

Þau getur þú tínt úti, hvort sem er úti í garði eða úti í náttúrunni.