Print Friendly, PDF & Email

Þessi kjúklingur er alger snilld. Þú þarft að verða þér úti um 2 múrsteina eða góða gangstéttarhellu til að klæða í álpappír og nota til að pressa kjúklinginn niður á grillið.

Þú klippir hrygginn úr kjúklingnum þannig að hægt sé að fletja hann vel út undir steininum og þá grillast hann á stuttri stund og verður safaríkur og bragðmikill.

Þú getur reiknað með 1 fugli á 3 fullorðna, fyrir 4 ef þú hefur helling af góðu meðlæti með.

Múrsteinskjúlli

  • 1 stór kjúklingur
  • 1 msk cayenne pipar
  • 1 msk chiliflögur
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 msk oregano
  • 1 tsk tabasco sósa
  • 1 msk szechuan pipar
  • 1 msk svartur pipar, nýmalaður
  • 1 msk sjávarsalt
  • 3 msk ólífuolía

Undirbúningur: 20 mínútur

Grill: 30 mínútur

Byrjaðu á að klippa niður með hryggnum á kjúklingnum báðu megin og losa úr honum hryggsúluna. Nú geturðu opnað kjúklinginn og flatt hann út.

Settu í stóra skál allt kryddið og olíuna og hrærðu vel saman, settu kjúklinginn í skálina og nuddaðu kryddblöndunni vel inn í hann, nuddaðu undir skinnið á bringunni líka. Láttu standa í 10-15 mínútur til að kjötið taki vel í sig bragðið.

Hitaðu grillið á meðan og vefðu  múrsteinunum/gangstéttarhellunni inn í álpappír. 2-3 lög ættu að duga vel.

Hafðu grillið á meðalhita og legðu kjúklinginn á það með haminn niður. Settu nú steinana ofan á og þrýstu vel þannig að þeir sitji kyrrir. Steiktu kjúklinginn svona í 10 mínútur. Þú þarft að fylgjast vel með grillinu því að mikill safi getur runnið úr kjúklingnum og kviknað í honum.

Snúðu nú kjúklingnum við á grillinu, settu steinana aftur ofan á, þrýstu vel niður. Grillaðu í 10 mínútur.

Snúðu fuglinum einu sinni enn við, settu steinana ofan á og grillaðu í 10 mínútur í viðbót.

Taktu kjúklinginn af og leyfðu kjötinu að hvíla í 5-10 mínútur. Þetta er mjög nauðsynlegt, ef þú skerð of snemma í kjötið missirðu allan safa úr því og situr uppi með þurran kjúkling.

Við mælum með að drekka með þessu vel kælt Frontera Chardonnay og  hafa fullt af fersku salati og bökuðum kartöflum með. Ekki gleyma servíettum, það eiga allir eftir að kroppa hverja einustu flís af beinunum.