Print Friendly, PDF & Email

Það er ótrúlega einfalt að gera sitt eigið morgunkorn eða granóla. Og þú ræður alveg bragðinu!

Hér koma 2 uppskriftir fyrir þig að prófa.

MorgunBlanda#1

 • 100gr hafrar
 • 25 gr möndlur, grófsaxaðar
 • 50gr kókosmjöl
 • 50gr byggflögur
 • 1 tsk kanil, malaður
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 dl repjuolía
 • 2 msk hunang
 • 2 msk hlynsýróp
 • 2 msk hrásykur
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 50 gr rúsínur

Hitaðu ofninn í 140°C.

Blandaðu saman í stórri skál: höfrum, möndlum, kókos, byggflögum, kanil og salti.

Hrærðu saman í litlum potti olíunni, hunangi, sýrópi, sykri og vanilludropum, láttu suðuna koma upp og slökktu undir þegar allt hefur blandast vel saman og sykurinn bráðinn.

Helltu þá blöndunni yfir hafra blönduna og hrærðu vel. Dreifðu jafnt á bökunarpappír á plötu og bakaðu í ofninum í 15-20 mínútur. Það er ágætt að hræra einu sinni eða tvisvar í blöndunni á meðan.

Þegar þetta er bakað þá blandarðu rúsínunum saman við og lætur kólna.

Geymist í loftþéttu íláti.

MorgunBlanda#2

 • 85 gr hafrar
 • 25 gr kókosflögur
 • nokkrar hnetur, saxaðar gróflega
 • 60 gr kakónibbur
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk kanill
 • 1 msk kókosolía
 • 3 msk hunang

Hitaðu ofninn í 140°C.

Blandaðu höfrum, kókosflögum, kakónibbum og hnetum saman í stórri skál.

Settu í pott kókosolíuna, salt, kanil og hunang og hitaðu þar til allt hefur blandast vel saman og kókosolían bráðnað. Hrærðu út í hafrablönduna.

Dreifðu á bökunarpappír á plötu og bakaðu í ofninum í 10 mínútur, það er gott að hræra einu sinni í blöndunni á meðan.

Taktu úr ofninum og þjappaðu öllu vel saman með sleif, þá býrðu til þessa fínu köggla af morgunkorni. Leyfðu blöndunni að kólna alveg og settu svo í loftþétt ílát.

 

Byrjaðu daginn á morgunkorni með því sem þér finnst best,

hvort sem það er jógúrt, súrmjólk, hrísgrjónamjólk eða möndlumjólk.

Góðan dag!