Print Friendly, PDF & Email

Mér hefur alltaf fundist  marmaraegg svo falleg fyrir utan að þau eru einstaklega bragðgóð. Þau má bera fram heil með köldu kjöti, skera í tvennt og fylla með sinnepsmajonesi og kryddjurtum eða setja smá kavíar ofan á þau. Upprunalega kemur þessi tækni frá Kína en ég hef kosið að krydda örlítið í uppskriftina til að fá smávegis bragð í eggjahvítuna.

 

Marmaraegg

  • 4-6 egg
  • 3 tepokar
  • 2tsk teryaki eða sojasósa
  • 2 tsk worchestershire sósa
  • 2 tsk sykur
  • safi og börkur úr 1/2 appelsínu

Undirbúningstími: 30 mínútur

Tími fram að framreiðslu: 12-24klst

 

Settu eggin í pott og nægilegt vatn svo fljóti amk 1-2cm yfir. Láttu suðuna koma upp og sjóddu í 1 mínútu, slökktu þá undir og færðu pottinn til hliðar. Eggin eiga að sitja í vatninu í 20 mínútur. Þá tekurðu þau upp úr og dunkar þeim í eða notar skeið til að slá í eggið til að  skurnin springi um allt eggið án þess að detta af.  Láttu tepokana í heita vatnið í pottinum og láttu trekkja í 5-6 mínútur. Settu eggin í skál, teryaki sósu, worchestershire sósu, sykur, börk og appelsínusafa og tevatn svo að fljóti vel yfir. Nú þarftu að setja skálina inn í ísskáp í lágmark yfir nótt, best er ef hægt er að láta eggin liggja yfir nótt í leginum, þannig fá þau í sig meiri lit og bragð. Þú mátt láta eggin liggja í leginum í allt að 2 sólarhringa.

Þegar eggin eru tilbúin tekur þú þau úr leginum og flysjar mjög varlega.

 

_MG_0557