Print Friendly, PDF & Email

Þessi laukbaka er oft í matinn hjá okkur, hún er einföld og ódýr og svo ljúffeng að meira að segja þekktum lauk-höturum finnst hún meiriháttar góð. Svo er hún frábær köld og hentar því vel í hádegismat eða nesti næsta dag.

Við byrjum á að útbúa deigið, ekki láta það hræða ykkur, þetta tekur enga stund. Heildartími frá byrjun þar til þið getið lagt bökuna á borð er um 1klst og 15 mínútur.

 

Bökudeig

 • 125 gr hveiti
 • 55 gr smjör, skorið í teninga
 • smá salt
 • 30-45 ml kalt vatn

 

Best er að gera deigið í matvinnsluvél, setja hveitið og smá salt og smjörið í teningum út í vélina og púlsa vel saman þar til líkist brauðmylsnu. Þá setja vatnið, lítið í einu, bara til að halda deiginu saman.
Ef þú vilt gera þetta í höndunum þá nuddarðu smjörinu inn í hveitið og hnoðar svo vatni saman við.
Deigið þarf núna að fara í plastpoka og inn í ísskáp í 10-15 mínútur.
Á meðan skerðu laukinn….sjá áfram.

Laukbaka fyrir 4-5

 • Bökudeig (sjá að ofan)
 • 3 msk smjör
 • 2 msk olía
 • 800gr laukur
 • 2 egg
 • 200ml matreiðslurjómi
 • 45 gr parmesan, rifinn
 • smá salt og pipar

 

Á meðan við kælum deigið þá byrjum við á að hita ofninn  í 180°C. Taktu  nú laukinn, flysjaðu, skerðu í tvennt og sneiddu í þunnar sneiðar. Settu smjörið og olíuna á pönnu á lágan hita og laukinn út í og láttu malla í 30 mínútur með lokið á, eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og gullinn. Hrærðu í annað slagið og passaðu vel að hafa ekki of mikinn hita, við viljum ekki brúna eða ofsteikja laukinn.

Á meðan laukurinn mallar, þá sækjum við deigið, breiðum það út og setjum í form, það þarf ekki að smyrja formið því það er nóg af smjöri í deiginu.

Þessi uppskrift miðar við 23cm bökuform, hægt er að nota líka 20cm springform og smyrja það þá vel svo hægt sé að ná bökunni úr forminu án þess að hliðarnar brotni.

Þegar þú ert búin/n að koma deiginu fyrir í forminu þá þarf að setja bökunarpappír yfir botninn og hella baunum þar í áður en við bökum deigið. Þetta er gert til þess að botninn blási ekki allur út og við fáum sléttan og fínan (en ekki of þurran)  botn í bökuna fyrir fyllinguna okkar. Ég notaði þurrkaðar kjúklingabaunir sem ég átti, um 1 bolla, nægilega margar baunir til að halda pappírnum þéttum við deigið.  Við bökum núna deigið í mótinu í 15 mínútur í ofninum.

Á meðan að deigið bakast þá vindum við okkur í að útbúa fyllinguna. Sláum saman eggjunum og rjómanum í skál, bætum þar næst við rifna parmesan ostinum og salti og nýmöluðum svörtum pipar. Það getur verið gott að setja smávegis timian eða rósmarín, en þessi baka er alveg jafngóð þó að í henni sé bara salt og pipar.  Þegar laukurinn er tilbúinn bætum við honum saman við eggja/rjómablönduna og hrærum vel saman.

Þegar deigið hefur bakast í 15 mínútur tökum við formið úr ofninum og tökum pappírinn og baunirnar í burtu, hellum fyllingunni í bökuna og dreifum vel úr henni. Setjum þetta svo inn í ofn og bökum í 25 mínútur eða þar til bakan er gullin á lit.
Það er mjög gott að bera fram með þessu ferskt grænt salat með smá sjávarsalti og ólífuolíu og/eða eitthvað ferskt og gott íslenskt grænmeti.

Verði ykkur að góðu.