Print Friendly, PDF & Email

Fljótlegt og alveg hrikalega gott og ansi ólíklegt að verði afgangur!

Kúrbítslasagne fyrir 4

  • Tómatsósa
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif marið
  • 1 tsk capers, saxaðir
  • 2 tsk pestó
  • 1/2 tsk hunang
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • salt og pipar
 • Kúrbítsfylling
 • 1 msk ólífuolía
 • 1 laukur, fínt saxaður
 • 3 kúrbítar, rifnir gróft
 • 3 hvítlauksrif, marin
 • 250 gr rjómaostur, hreinn
 • 75 gr ostur, rifinn
 • 10 lasagneblöð (þurrkuð eða fersk)

 

Undirbúningur og eldun á eldavél: 35 mínútur með þurrkuðu lasagne/45 mínútur með fersku lasagne

Eldunartími í ofni: 15 mínútur

Byrjaðu á að útbúa tómatsósuna. Hitaðu olíu í potti, settu í hana hvítlaukinn og capers og steiktu í smá stund, skelltu þá skeið af pestói út í. Þar næst seturðu tómatdósina og hunangið og lækkar hitann og lætur malla.

Ef þú ætlar að útbúa pastað sjálf/ur þá er fínt að gera deigið á þessu stigi, skella því svo inn í ísskáp á meðan þú útbýrð fyllinguna.

Til að gera kúrbítsfyllinguna þá hitarðu olíu í stórri pönnu og steikir laukinn þar til hann er orðinn glær, næst setur þú hvítlaukinn og rifna kúrbítinn út í og steikir þar til kúrbíturinn er orðinn fagurgrænn. Þá setur þú 200 gr af rjómaostinum út í og helminginn af rifna ostinum, hrærðu vel og láttu malla örlítið. Smakkaðu til með smá salti og nýmöluðum svörtum pipar.

Hitaðu ofninn í 200°C og hitaðu vatn í potti fyrir lasagneblöðin, mundu eftir að salta vatnið vel.

Ef þú gerðir ferskt pasta; taktu deigið úr ísskápnum og flettu út í 1-2 mm þykkt og skerðu í hæfilegar stærðir fyrir lasagne blöð.

Nú er komið að því að léttsjóða lasagneblöðin.

Þú stingur blöðunum út í pottinn, 3-4 í einu og lætur sjóða í 2 mín(fersk)/5 mín(þurrkuð). Kippir þeim svo upp úr og setur í skál með ísköldu vatni og þværð aðeins og leggur svo til þerris á hreint stykki. Gerðu þetta við öll blöðin. Þetta þarftu að gera án þess að svindla því að lasagne-ið er bara í ofninum í um 10 mínútur og sá tími dugar ekki nægilega til að fullelda lasagneblöðin ef þau eru hrá.

Þá er hægt að fara að raða lasagne-inu saman: fyrst seturðu 1/3 af kúrbítsfyllingunni í botninn á mótinu, þar næst lasagneblöð, svo tómatsósu, svo lasagneblöð, svo kúrbít og svo framvegis. Endaðu á að setja kúrbítsfyllingu yfir allt og settu svo afganginn af rjómaostinum í litlum kúlum eða teskeiðastykkjum með jöfnu millibili yfir allt. Að lokum stráirðu rifna ostinum yfir og setur þetta inn í ofn.

Þetta bakast á 10-12 mínútum í ofninum, fylgstu vel með, þegar osturinn er orðinn gullinbrúnn þá er þetta tilbúið.

Dásamlegt með grænu salati eða hreinlega bara eitt sér.