Print Friendly, PDF & Email

Sykraðar, saltaðar, kryddaðar, með hnetum eða einar sér. Ómótstæðilegar.

Það er hægt að útbúa kryddhnetur og möndlur á margan hátt og hér að neðan eru nokkrar mismunandi aðferðir.

Möndlurnar geymast vel í loftþéttu íláti í allt að 1 viku.

 

Hunangsristaðar möndlur

 • 500gr heilar möndlur í hýði
 • 2tsk kanill
 • 1tsk vanilludropar
 • 2msk hunang
 • smá salt
 • ólífuolía

 

Hitaðu ofninn í 190°C.

Blandaðu saman í skál möndlum, salti og 1-2 msk ólífuolíu. Hrærðu þessu vel saman þar til olían þekur möndlurnar.

Bættu nú við 1 tsk af kanilnum, vanillunni og hunanginu og hrærðu vel.

Sett á bökunarpappír í ofnskúffu og bakað í 10 mínútur. Tekið svo út úr ofninum og látið kólna, sett aftur í skál og hinni teskeiðinni af kanilnum bætt út í, hrært vel saman aftur.

 

Mexíkóskar súkkulaðimöndlur

 • 500gr heilar möndlur í hýði
 • 3 msk hlynsýróp
 • 2 msk púðursykur
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk cayenne pipar
 • 1/4 tsk kanill
 • 1 1/2 msk kakóduft

 

Hitaðu ofninn í 190°C.

Blandaðu saman hlynsýrópi, púðursykri, salti, cayenne og kanil í pott og hitaðu yfir meðal hita þar til suðan kemur upp. Bættu þá möndlunum saman við og láttu malla í 3 mínútur. Hrærðu stöðugt í.

Helltu möndlublöndunni á bökunarpappír og dreifðu vel úr. Baka þetta í miðjum ofni þar til möndlurnar verða dökkbrúnar, eða um 20 mínútur.

Fylgstu vel með, það er ansi þunn lína á milli rétta brúna litsins og brunarústa!
Þegar þér finnst möndlurnar hafa bakast nægilega tekur þú þær út úr ofninum og lætur kólna alveg.

Settu kakóduft í poka, möndlurnar í pokann og hristu hann vel til að blanda kakóduftinu vel á möndlurnar. Njóttu!

 

Kryddaðar möndlur

 • 500gr heilar möndlur í hýði
 • 1 msk ólífuolía
 • 1tsk cumin, malað
 • 1tsk paprikuduft
 • 1/3 tsk salt
 • 1/3 tsk cayennepipar

 

Hitaðu ofninn í 190°C.

Settu möndlur, olíu, cumin, paprikuduft, salt og caeyenne pipar í skál og blandaðu vel saman. Dreifðu úr þessu á bökunarpappír á ofnplötu og bakaðu í ofni þar til léttristað, eða 25-30 mínútur. Láttu kólna alveg.