Print Friendly, PDF & Email

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt við þann mat sem við borðum oft. Það getur verið gaman að leika sér með hrísgrjón, þessi uppskrift hentar afar vel sem meðlæti með grillkjöti eða hverskonar kjöti; lambi, svíni, nauti eða kjúkling. Eins eru þessi grjón góð inn í taco eða tortillur.

Kryddgrjón

  • 3 tómatar
  • 1 laukur
  • 175 gr hrísgrjón
  • 3 msk olía
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 tsk chiliflögur
  • 350 ml vatn
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1/2 tsk salt

Undirbúningur: 5 mínútur

Eldunartími: 25 mínútur

Settu tómatana og laukinn í matvinnsluvél og maukaðu.

Skolaðu hrísgrjónin vel í sigti með rennandi vatni.

Settu olíu á pönnu og steiktu grjónin í 3-4 mínútur, hrærðu stanslaust í á meðan. Bættu þar næst hvítlauk og chiliflögum út í og hrærðu vel. Steiktu þar til fer að ilma eða í hálfa mínútur.

Bættu nú tómata og laukmaukinu út í ásamt vatni kjötkrafti, tómatpúrru og salti. Hrærðu vel til að blanda saman og láttu malla rólega undir loki í 20 mínútur.

Þegar grjónin eru soðin þá hrærirðu í þeim með gaffli til að losa þau í sundur.