Print Friendly, PDF & Email

Þennan kjúkling er fljótlegt og einfalt að gera og í hann geturðu notað ljóst eða dökkt öl. Ég notaði Newcastle Brown Ale.

Athugaðu tvennt:
Þú þarft að marinera kjúklinginn í 2-4 klst áður en þú eldar hann.
Kjúklinginn þarftu að klippa upp að aftan, klippa úr honum hrygginn.

Uppskriftin miðast við 1 stóran kjúkling og er þá fyrir 4 með meðlæti.

Frábær með kartöflustöppu og salati.

Kjúklingur í ölsósu

  • 1 stór heill kjúklingur
  • 3 skallottulaukar, grófsaxaðir
  • 7 hvítlauksrif, marin
  • 3 msk Dijon sinnep
  • 3 msk ólífu olía
  • 1 flaska Öl  (330ml)
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk svartur pipar
  • 1/2 tsk cayennepipar

Undirbúningur: 15 mínútur

Marinering: 2-4 klst

Eldunartími: 45-60 mínútur

Byrjaðu á að klippa hrygginn úr kjúklingnum og fletja hann út.
Þetta er frekar einfalt en þú þarft beitt og sterk skæri í verkið.
Settu fuglinn á bretti með bringuna niður, klipptu upp með hryggnum báðu megin. Hrygginn geturðu geymt ef þú ert að safna beinum í soð.
Þegar þú hefur tekið hrygginn úr, þá snýrðu fuglinum við og ýtir þéttingsfast niður á bringuna til að fletja hann út.

Gerðu marineringuna: Blandaðu öllum innihaldsefnunum saman í stórri skál. Leggðu kjúklinginn í og nuddaðu hann vel með marineringunni. Nuddaðu marineringu undir húðina á bringunni. Settu skálina í plastpoka og láttu marinerast inni í ísskáp í 2-4 klst.

Hitaðu ofninn í 190°C.

Settu fuglinn í stórt eldfast mót eða ofnpott, helltu marineringunni yfir hann. Steiktu í ofninum í 45-60 mínútur eða þar til kjöthitamælir sýnir 70°C í þykkasta hluta kjötsins; bringu eða læri.

Taktu úr ofninum og láttu standa í 5-8 mínútur áður en þú skerð fuglinn. Það er mikilvægt að hvíla allt kjöt áður en það er skorið til að tapa ekki safa úr því og enda með þurra bita.

Berðu fram með kartöflum eða kartöflustöppu, sósunni af fuglinum hitaðri upp í potti með smá rjóma, grænmeti og salati.

Við mælum með að drekka ískaldan Pilsner Urquell með þessum rétti.[/two_third_last]