Print Friendly, PDF & Email

Það þarf ekki að vera flókið að elda indverska rétti og það þarf heldur ekki að vera dýrt.

Í þennan rétt nota ég kjúklingaleggi, sem ég tek skinnið af og stytti beinið á leggnum. Það má eins nota læri eða blandaða bita, ég mæli með að hafa beinið með til að fá sem mest bragð og hreinsa skinnið af bitunum.

Kjúklingakorma fyrir 4

 • 6 hvítlauksrif, grófsneidd
 • 3 cm engiferrót, grófskorin
 • 75 gr möndlur í hýði
 • 450 ml vatn
 • 3 msk olía
 • 2 lárviðarlauf
 • 10 grænar kardmimommur, marðar
 • 5 negulnaglar
 • 3 cm kanilstöng
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 1 msk cumin, malað
 • 1 msk kóríander, malað
 • 1/4 tsk chili duft
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk garam masala
 • 1 kg kjúklingabitar
 • 5 msk rjómi (má nota létt AB mjólk í staðinn eða hreina jógúrt)

 

Undirbúningstími: 20 mínútur

Eldunartími: 45 mínútur

Settu í matvinnsluvél; hvítlauk, engifer, möndlur og 4 msk af vatni og maukaðu vel saman þar til möndlurnar eru fínmalaðar. Ef þetta er of þurrt þá bæta 1-2 msk vatni við, þetta á að vera örlítið rakt til að haldist saman.

Hitaðu olíuna á stórri pönnu á góðum hita og steiktu lárviðarlaufin, kardimommurnar, negulnaglana og kanilstöngina þar til kryddið fer að poppa (10-15 sekúndur).

Bættu þá lauknum saman við og steiktu þar til hann er orðinn gullinn á lit.

Lækkaðu hitann undir pönnunni og hrærðu nú möndlumaukinu út í og steiktu í 2-3 mínútur. Hrærðu vel á meðan til að brenna ekki maukið.

Bættu þá við cumin, kóríander og chilli duftinu og hrærðu vel og steiktu kryddið í um 30 sekúndur.

Næst seturðu tómatpúrruna út í  og hrærir vel saman við.  Þetta er orðið svolítið þurrt á pönnunni, en hafðu engar áhyggjur, þetta á eftir að blandast upp í dásamlega sósu.

Settu nú salt, garam masala og  200ml af vatni saman við og hrærðu öllu vel saman, nú geturðu byrjað að reyna að ná upp öllu kryddinu á botninum á pönnunni.

Næst seturðu kjúklinginn út í og veltir honum vel í blöndunni, bætir þar næst við rjómanum og afgangnum af vatninu (250ml) og hrærir aftur vel. Ef þér finnst vanta aðeins meira vatn þá er þér óhætt að bæta við, þú getur alltaf soðið sósuna niður með því að taka lokið af pönnunni.

Þetta á að malla með lokið á í 30-40 mínútur og hræra annað slagið, eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn, hann næstum dettur af beinunum og ilmurinn úr pönnunni er ómótstæðilegur.

Með þessu er hægt að borða hrísgrjón eða chapati brauð eða gott ferskt grænmeti eða salat.