Print Friendly, PDF & Email

Í þessa súpu notaði ég kaffírlauf. Þau er hægt að fá í asískum matvöruverslunum eins og Vietnam Market á Suðurlandsbraut. Einnig er hægt að fá þau í deildum matvörumarkaða sem selja asískt hráefni, t.d. eins og í Krónunni og Hagkaupum.

Ef þú getur ekki fundið kaffírlauf þá getur þú sett rifinn börk af 1 lime út í súpuna í staðinn, en það er ekkert sem kemur samt í stað fyrir kaffírlaufin, þau eru alveg einstök á bragðið.

Kjúklinga- og kókossúpa fyrir 4

 • 450ml vatn
 • 1 dós kókosmjólk (400ml)
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 3-4cm biti ferskur engifer
 • 4 kaffir lime lauf
 • EÐA börkur af 1 lime
 • 2 stilkar sítrónugras
 • 4 skallottulaukar, flysjaðir og helmingaðir
 • 3 msk fiskisósa
 • safi úr 1 lime
 • 600gr kjúklingur (bein- og skinnlaus)
 • 10 sveppir
 • 2 tómatar, skornir í fernt
 • 1 rautt chili
 • smá sykur

Undirbúningstími: 10 mínútur

Eldunartími: 15 mínútur

Settu vatn og kókosmjólk í pott ásamt teningnum af kjúklingakraftinum. Flysjaðu engiferrótina og skerðu í þunnar sneiðar og settu út í pottinn. Bættu nú kaffir laufunum út í, skerðu sítrónugrasið í stórar grófar sneiðar og settu í pottinn ásamt skallottulauknum. Láttu suðuna koma kröftuglega upp og lækkaðu svo undir svo að malli vel við vægan hita. Bættu þá fiskisósunni og kjúklingnum út í, skerðu kjúklinginn í þunnar sneiðar eða litla bita. Skerðu sveppina í þykkar sneiðar og settu í pottinn, fræhreinsaðu chiliið og skerðu í ræmur og bættu saman við, skerðu tómatana í fernt og bættu út í. Láttu nú sjóða í 4-5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er soðinn, smakkaðu til með aðeins meiri fiskisósu(salt) og smá sykri. Berðu fram með salati eða baunaspírum með limesafa og ferskum kóríander.