Print Friendly, PDF & Email

Þessi eru frábær með kaffinu eða í eftirrétt. Þessi kaka er langt í frá að vera hollusta og ætti því að vera til spari.

Þú getur gert köku úr snúðunum með því að raða þeim í eldfast mót eða kökuform, eða gert bara venjulega snúða.

Kaffisnúðar

 • 1 msk sykur
 • 15 gr þurrger
 • 250 ml mjólk
 • 1 eggjarauða
 • 50gr bráðið smjör
 • 1 tsk salt
 • 400 gr hveiti
 • Kaffisýróp
 • 2 dl espresso
 • 50 gr púðursykur
 • 3 msk smjör
 • 50 gr súkkulaði, saxað
 • Kaffikrem
 • 200 gr flórsykur
 • 1 msk bráðið smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • rótsterkt kaffi

Undirbúningstími: 15 mínútur

Hefun: 80 mínútur

Baksturstími: 30 mínútur

Blandaðu sykri, ger og ylvolgri mjólk saman í skál og láttu standa í 3-4 mínútur eða þar til fer að freyða.

Bættu nú út í gerblönduna eggjarauðunni, bráðnu smjöri og salti. Hrærðu vel.

Öllu þessu blandarðu nú saman við 400 gr af hveiti og hnoðar í 8-10 mínútur. Settu deigið í skál og viskustykki yfir og láttu hefast á hlýjum stað í 30-40 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Á meðan býrðu til kaffisýrópið ; hitaðu í potti espresso/rótsterkt kaffi og púðursykur þar til sykurinn leysist upp og sýrópið þykknar.

Þegar deigið hefur hefast þá tekurðu það varlega úr skálinni og hnoðar afar varlega. Það á ekki að kýla deig niður, þú vilt hafa eins mikið loft og þú getur í deiginu til að brauðið/kakan verði létt og mjúk.

Flettu deigið út í stóran ferhyrning og smyrðu með smjöri og dreifðu súkkulaðinu yfir. Settu smá af kaffisýrópinu yfir deigið.

Rúllaðu nú deiginu upp og skerðu svo í snúða. Leggðu á bökunarpappír eða settu í smurt eldfast mót til að gera köku og breiddu viskustykki yfir. Láttu hefast í aðrar 30-40 mínútur.

Hitaðu ofninn í 200°C.

Bakaðu snúðana í 20 mínútur með smjörpappír ofan á, taktu smjörpappírinn og bakaðu svo í 10 mínútur í viðbót. Láttu kólna smá og útbúðu kremið á meðan.

Til að útbúa kaffikremið seturðu flórsykur, bráðið smjör og vanilludropa í skál og notar kaffi til að ná þeirri þykkt á glassúrnum sem þú vilt. Smyrðu/helltu yfir snúðana/kökuna þegar hún hefur kólnað örlítið.