Print Friendly, PDF & Email

Það er svo fáránlega einfalt að búa til majones. Þú getur líka stjórnað hvernig það er á bragðið.

Majones

    • 2 eggjarauður
    • 1 1/2 dl olía (repju- eða korn)
    • hnífsoddur salt
    • 1/2 tsk hvítvínsedik
    • 1 tsk sinnepsduft (má sleppa)

 

Tími: 10 mínútur

 

Settu eggjarauðurnar í stóra skál og settu pínulítið salt og sinnepsduft saman við, hrærðu vel.

Hafðu nú olíuna tilbúna og handþeytarann. Byrjaðu að setja nokkra dropa af olíunni út í eggjarauðurnar og þeyttu vel. Galdurinn við gott majones er að passa að hver einasti dropi af olíu þeytist vel saman við eggjarauðurnar áður en þú bætir meiri olíu við. Ekki örvænta þó að í fyrstu virðist sem að þetta sé allt komið í klessu hjá þér. Þegar þú hefur bætt aðeins meiri olíu við þá fer þetta að þykkna og stífna og líkjast majonesi. Þegar það gerist og þetta er stíft þá bætirðu 1/2 tsk af ediki saman við og þeytir. Nú er hægt að þeyta stöðugt og hella olíunni saman við mjög hægt og rólega en stanslaust. Ekki hætta að þeyta!

Þegar þú ert búin/n að bæta allri olíunni í þá er gott að setja teskeiðarfylli af ísköldu vatni saman við og þeyta, þá verður majonesinn hvítur á litinn.

Ef allt hleypur í kekki hjá þér og þú hefur sett olíuna alltof hratt út í þá þykknar blandan ekki. Þá þarftu að byrja upp á nýtt; settu 1 eggjarauðu í nýja skál, notaðu ónýtu blönduna 1 dropa í einu og þeyttu saman við þar til þú ert búin/n með þetta ónýta, haltu svo áfram að blanda olíunni við.