Print Friendly, PDF & Email

Það jafnast ekkert á við heimabakaða gulrótarköku, hún sómir sér bæði í veislum svo og með kaffinu. Og þó hún sé full af gulrótum þá er þetta ekki hollustuuppskrift heldur hefðbundin gulrótarterta.

Gulrótarkaka

 • 300gr sykur
 • 3 dl repjuolía
 • 4 egg
 • 300gr hveiti 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk kanill, malaður
 • 500gr gulrætur, rifnar
 • 100gr heslihnetur,  grófsaxaðar
 • KREM
 • 250gr flórsykur
 • 400gr rjómaostur
 • 2 msk hlynsýróp
 • 100gr smjör, mjúkt
 • 3 tsk vanilludropar

Undirbúningur: 15 mínútur

Baksturstími: 45 mínútur

Hitaðu ofninn í 165°C.

Smurðu 2 23cm springform að innan.

Blandaðu saman í stórri skál sykri og olíu. Þeyttu vel. Bættu eggjunum út í, einu í einu, þeyttu vel á meðan. Sigtaðu nú þurrefnin (hveiti, lyftiduft, matarsódi, salt og kanill) út í eggjablönduna og hrærðu vel þar til deigið er kekkjalaust. Blandaðu nú gulrótunum og heslihnetunum út í deigið.
Skiptu deiginu á milli formanna tveggja. Bakaðu í 45 mínútur eða þar til tilbúið. Þú getur stungið tannstöngli eða prjóni í miðja kökuna, ef hann kemur út hreinn er kakan til-ef er deig fast við þá þarftu að baka lengur.

Taktu úr ofninum og láttu kólna.
Gerðu kremið.

Það er mjög mikilvægt að smjörið sé alveg mjúkt, annars færðu ekki mjúkt og fallegt krem.

Þeyttu saman smjörinu og flórsykrinum, bættu þar næst við rjómaostinum og blandaðu vel. Helltu hlynsýrópinu og vanilludropunum út í og hrærðu vel. Láttu inn í ísskáp á meðan kakan kólnar.

Athugaðu að setja kremið ekki á kökuna fyrr en hún er köld, annars bráðnar það.

Smyrðu annan helminginn af kökunni með 1/3 af kreminu, leggðu hinn ofan á og hjúpaðu með afgangnum af kreminu.
Algerlega dásamlegt!