Það er afar einfalt að verka gæsabringur svo úr verði dásamlegur matur.
Ferlið tekur um sólarhring og ég kýs að bera hana fram með bláberjachutneyinu mínu hrærðu út í smá sýrðan rjóma eða gríska jógúrt.
Grafin gæsabringa
- 1 gæsabringa
- gróft salt
- 1 msk fennelfræ
- 1 msk blóðberg eða timian
- 10 einiber
- 10 svört piparkorn
- 1msk sykur
- 2 greinar rósmarín
Undirbúningur: 3 klst
Verkun: 20-24klst
Byrjaðu á að strá vel af salti yfir bringuna, báðu megin og láttu standa á disk í stofuhita í 2-3 klst.
Skolaðu þar næst bringuna vel til að ná öllu salti og kjötvökva af.
Settu allt hráefnið fyrir kryddblönduna í skál og blandaðu vel saman.
Nú þarftu að hylja bringuna í kryddinu. Mér finnst lang best að leggja eldhúsfilmu á borðið, strá helmingnum af kryddblöndunni á , leggja bringuna ofan á, hella svo afgangnum af kryddblöndunni yfir og vefja svo vel inn í plastið.
Láttu í ísskáp, þetta tekur um sólarhring að verða til.
Þegar kemur að því að bera fram þá skerðu bringuna í mjög þunnar sneiðar. Geggjað með bláberjachutneyi hrærðu út í sýrðan rjóma og glasi af Casillero del Diablo Shiraz Reserva til að setja punktinn yfir i-ið.