Print Friendly, PDF & Email

Eplasnakk

  • 1 epli
  • 2 msk flórsykur
  • 3 msk hlynsýróp
  • 4 msk valhnetur hakkaðar

 

Undirbúningstími: 5 mínútur

Bökunartími: 70-80 mínútur

 

Hitaðu ofninn í 90°C á blæstri / 100°C á undir og yfirhita.

Sneiddu eplið niður í ofurþunnar sneiðar, ekki hugsa um að reyna að ná kjarnanum úr, hann skiptir engu máli og steinarnir detta úr.

Settu bökunarpappír á plötu, stráðu 1 msk af flórsykri á hana og raðaðu eplasneiðunum á plötuna þannig að þær snertist ekki. Blandaðu saman 2 msk af hlynsýrópinu og 1 msk af flórsykri og penslaðu eplin með blöndunni.

Settu plötuna inn í ofninn, reyndu að hafa örlitla rifu á ofnhurðinni til að hleypa raka út. Nú eiga eplin að bakast í 45 mínútur eða þar til þau fara að krullast upp á köntunum.

Þá tekurðu þau út úr ofninum og penslar með afganginum af hlynsýrópinu og stráir valhnetunum yfir. Bakar svo aftur í 25-30 mínútur.

Taktu eplin af plötunni og raðaðu þeim á bökunargrind og láttu kólna. Þau verða stökk þegar þau kólna og þá er hægt að borða þau. Þú getur líka sleppt sýrópinu og flórsykrinum, stráð kanil yfir eplin eða smávegis rósmaríni, notað hunang í staðinn fyrir sýróp, eða haft eplin bara eins og þau koma fyrir án nokkurs annars.

Til að varna því að epli skorpni og verði hrukkótt er best að geyma þau í ísskáp í plastpoka sem laust er lokað.
Það er hægt að frysta epli í sneiðum eftir að sjóða þau örsnöggt. Raðið þeim í einfalt lag og frystið, þá er hægt að setja þau í poka og geyma í frystinum.
Ef epli er orðið lint og leiðinlegt þá má flysja það og taka úr því kjarnann, skera í bita og sjóða með örlitlu vatni, hunangi eða hlynsýrópi, og rúsínum.
Æðislegt með hreinni jógúrt.