Print Friendly, PDF & Email

Þessi sulta er alveg geggjuð á ristað brauð, með osti – eða það sem mér finnst betra – út í jógúrt eða súrmjólk! Þessi uppskrift er fyrir 1 litla krukku, alveg hæfilegt í nokkra daga.

Greip sulta með Earl Grey

  • 2 dl vatn
  • 1 poki Earl Grey
  • 2 greip, bleik eða rauð
  • 150gr sykur
  • 1 vanillustöng

Undirbúningur: 5 mínútur

Eldunartími: 50-60 mínútur

Settu 2 dl af sjóðandi heitu vatni í skál og tepokann út í. Láttu standa í 10-15 mínútur. Taktu nú tepokann úr og settu tevatnið í pott ásamt sykrinum.

Kreistu safann úr greip ávöxtunum út í pottinn og rífðu niður allt aldinkjötið og láttu með í pottinn. Passaðu þig að setja sem minnst af hvíta innri hlutanum af berkinum, þar liggur beiskjan. Skerðu vanillustöngina í tvennt og skafðu fræin innan úr og settu í pottinn.

Láttu malla við lágan hita í 45 mínútur eða 1 klukkustund eða þar til blandan fer að dökkna og karamelíserast. Þá er tími til að slökkva undir og setja í sótthreinsaða krukku.

Dásamlegt út í jógúrt eða súrmjólk, á kex eða brauð eða með ostum.