Print Friendly, PDF & Email

Nú er tími til að fara í berjamó og tína dýrindis bláber. Úr þeim er hægt að gera allt mögulegt gott, sultu, mauk, hlaup, chutney, bökur og lengi mætti telja.

Hér er uppskrift af einföldu hlaupi þar sem berin eru maukuð og soðin með lime safa og berki og smávegis af lavender fræjum. Þú getur sleppt lavendernum ef þú vilt.

Bláberjahlaup með lime og lavender

  • 700gr bláber
  • 2 lime
  • 2 tsk lavenderfræ
  • 2 msk sítrónusafi
  • 2 dl vatn
  • 700gr sykur
  • 1 bréf gult melamin

Undirbúningur: 10 mínútur

Suðutími: 15-20 mínútur

Settu bláber, rifinn börk af lime og safann úr lime ávöxtunum ásamt, lavender, sítrónusafa og vatni í stóran pott. Láttu suðuna koma upp og sjóddu við meðalhita í 10 mínútur, hrærðu vel í á meðan.

Sigtaðu nú saftina frá berjunum, þér er óhætt að stappa berin smá í sigtinu, þetta hlaup þarf ekki að vera tært og fínt og allt í góðu lagi þó að berjamauk komi með.

Settu nú saftina í pott og hentu hratinu – eða geymdu og settu út í venjulega sultu þegar þú sýður hana næst.

Hitaðu saftina og hrærðu melamininu út í, láttu suðuna koma upp og settu svo allan sykurinn út í. Láttu sjóða við vægan hita í 2-3 mínútur eða þar til þú hefur leyst upp allan sykurinn í blöndunni.

Helltu yfir í krukkur sem þú hefur soðið. Þú getur sótthreinsað krukkurnar með því að setja þær í gegnum heitasta prógramm í uppþvottavélinni eða raðað þeim í eldfast mót og fyllt upp með sjóðandi vatni.

Settu lokin á krukkurnar og skrúfaðu þéttingsfast á. Láttu kólna áður en þú setur í geymslu eða ísskáp.

Þessi sulta endist í 4-6 mánuði á svölum stað og lengur inni í ísskáp.[/two_third_last]