Print Friendly, PDF & Email

Spínat er alveg brjálæðislega hollt og ofboðslega gott ferskt og brakandi. En við getum líka borðað spínat á veturna þegar það vex ekki hér því það er hægt að frysta spínat. Hér eru æðislega góðar spínatbollur sem kosta lítið en eru bæði hollar og góðar. Láttu hugmyndaflugið stjórna því hvernig dýfu/sósu þú berð fram með bollunum. Ég ber oft fram með þeim Raita gúrkusósu eða kryddaða jógúrtsósu, það er líka hægt að nota guacamole eða bara hreinan sýrðan rjóma.

Spínatbollur f. 4

 • 450gr frosið spínat
 • 130gr hveiti/spelt/mjöl að eigin vali
 • 3 skallottulaukar, fínsaxaðir
 • 3 hvítlauksrif, marin
 • 1 tsk garam masala
 • 1 tsk kóríander, malað

Undirbúningur: 10 mínútur

Steikingartími: 15 mínútur

Kreistu allt vatn úr spínatinu og tættu það með fingrunum niður í skál. Bættu lauknum, hvítlauknum, kryddinu og um  hveitinu saman við og hnoðaðu þessu saman. Ef þetta er of blautt og klístrað þá bætirðu hveiti við, ef of þurrt þá bætirðu vatni.

Bleyttu lófana og hnoðaðu þessu saman í kúlur á stærð við borðtenniskúlu, eða þægilega lófastærð.

Settu um 1.5-2cm lag af olíu í pönnu, þú ætlar að grunnsteikja bollurnar, olían þarf að ná 1/3 upp á þær. Hitaðu olíuna vel og steiktu bollurnar þar til þær eru brúnaðar. Láttu olíuna renna af þeim á eldhúspappír. Það er gott að setja þær inn í 140°C heitan ofn á meðan þú býrð til sósuna, en þær eru samt líka mjög góðar kaldar.

 

Jógúrtsósa

 • 1/2 tsk olía
 • 2 tsk sinnepsfræ
 • 2 hvítlauksrif, marin
 • 1 tsk turmerik
 • 1 grænt chili, fræhreinsað og fínsaxað
 • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt

Undirbúningur: 2 mínútur

Hitaðu olíuna á pönnu og steiktu sinnepsfræ, hvítlauk, turmerik og chili í 30 sekúndur, eða þar til allt fer að ilma og sinnepsfræin að poppa.

Hrærðu öllu saman við jógúrtina í skál.