Print Friendly, PDF & Email

Það er ótrúlega einfalt að búa til alvöru íste, ódýrt og þú getur verið viss um hvað fer í drykkinn, stjórnað sykurmagni og sætutegund og valið það te sem er þér að skapi.

Þessi uppskrift er með svörtu tei, ég valdi Earl Grey til að fá smá blómaangan og bragð sem mér finnst svo einstaklega sumarlegt.

Uppskriftin gefur um 2L og best er að geyma teið í flösku(m) inni í ísskáp, þá geymist það í allt að 1 viku.

Íste

  • 2 pokar svart te
  • 1.7L vatn
  • 2.5dl sítrónusafi
  • börkur af einni sítrónu, rifinn
  • 5 msk hrásykur
  • 5 msk hunang

Hitaðu vatnið í stórum potti og láttu suðuna koma upp. Lækkaðu hitann og settu tepokana út í og láttu trekkja í 10 mínútur. Taktu þá pokana upp úr pottinum, það er ágætt að kreista vatnið úr þeim.

Rífðu börk af einni sítrónu út í pottinn, bættu við sítrónusafa, hrásykri og hunangi. Hrærðu vel í þar til sykurinn og hunangið leysast upp.

Síaðu teið til að losa þig við sítrónubörkinn, settu á flöskur og kældu.

Fylltu glas með klaka, skerðu sítrónusneið og settu í glasið og fylltu upp með ísteinu. Það er líka rosalega gott að setja 2-3 myntulauf eða sítrónumelissu út í glasið.